top of page

Fatasóun á Íslandi

Fatasóun er eitt stærsta vandamálið í heiminum nú til dags og hefur hún aukist verulega á síðustu árum. Mikil framleiðsla er á fatnaði og oft hefur hann lítinn endingartíma. Meirihluti alls fatnaðar á Íslandi sem hefur misst notagildi sitt endar í ruslinu og er annað hvort urðaður eða brenndur. Þessi mikla neysla hefur gríðarlega slæm áhrif á umhverfið.

 

Á ári hverju kaupir hver Íslendingur um 17 kíló af vefnaðarvöru, það er u.þ.b. þrisvar sinnum meira en meðaljarðarbúi. Umhverfisstofnun telur að 60% af vefnaðarvöru Íslendinga fari í ruslið en hin 40% fari í endurnotkun og endurnýtingu, það er alltof lág prósenta. Á hverju ári eru send 3000 tonn af vefnaðarvöru til útlanda til urðunar, það eru u.þ.b. fjórir og hálfur fjörtíu feta gámar í hverri viku sem gerir allt að 230 gámar á ári. Við getum rétt ímyndað okkur hversu mikil losun verður á gróðurhúsalofttegundum við flutninginn á öllum þessum gámum.

 

Framboð á ódýrum fatnaði hefur aukist töluvert á síðustu árum á Íslandi. Núna hafa til að mynda H&M, Lindex og New Yorker opnað verslanir, en þessar verslunarkeðjur eru allar þekktar fyrir framleiðslu á „fast fashion.“ Verðin á flíkunum hjá þessum keðjum er líka skuggalega lágt, það segir okkur mögulega til um gæðin. Mikil aukning hefur einnig orðið á netverslun og eru Íslendingar duglegir við að panta sér föt erlendis frá sem þarf svo auðvitað að flytja til landsins mest megnis með flugvélum, en þær eru einmitt einn helsti mengunarvaldur heims.

 

Framleiðsla fatnaðar ein og sér mengar gríðarlega mikið. Þegar fyrirtæki ætla sér að geta boðið upp á „fast fashion“ framleiðslu og þar af leiðandi fatnað á lágu verði neyðast þau til að láta verksmiðjur minnka allan auka kostnað. Þessi framþróun getur leitt til þess að ekki er gætt að umhverfisáhrifum. Framboðið á ódýrum fatnaði sem er oft á tíðum endingarlítill verður svo til þess að fólk kaupir meira og hendir í kjölfarið hraðar og oftar. Fatnaður getur innihaldið fullt af eitruðum litarefnum og öðrum óæskilegum efnum sem geta ekki brotnað niður í náttúrunni og er alls ekki æskilegt að brenna eða urða. Einnig er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að þær verslanir sem bjóða fatnað á mjög lágu verði borga oft á tíðum starfsfólki sínu mjög lág laun og misnota jafnvel vinnuaflið

Það er margt sem hver og einn getur gert til þess að sporna við þessum vanda, margt smátt gerir eitt stórt. Hér eru nokkrar hugmyndir:

 

  • Stilla innkaupum í hóf

  • Tileinka sér nægjusemi

  • Kaupa einungis það sem er bráð nauðsynlegt

  • Fylgja ekki tísku í einu og öllu

  • Fara vel með þann fatnað sem til er

  • Gera við fatnað sem hægt er að laga t.d. saumsprettur eða annað slíkt

  • Spyrjast fyrir um hvaðan fatnaðurinn kemur, hver gerði hann?

  • Gefa gömlum fatnaði nýtt líf t.d. Rauði krossinn

  • Nýta sér síður á netinu þar sem sala á notuðum fatnaði er auglýstur

  • Kaupa endingargóðan fatnað

  • Hugsa um gæði fremur en verð

  • Sýna auðmýkt og vera þakklátur fyrir það sem maður hefur

bottom of page